Skógivaxin olíuhreinsistöð í vinabæ Patreksfjarðar


 

 

Bærinn Naantali er við bæjardyrnar á Turku í Finnlandi, sem við hjónin áttum því láni að fagna að heimsækja um miðjan júní sl. Frá Turku til Naantali er álíka vegalengd og frá Patreksfirði til Bíldudals, nema ekki yfir tvo fjallvegi að fara. Turku og Naantali eru á suðvesturströnd Finnlands innanvert við gríðarlegan eyjaklasa, sem telur yfir 20.000 eyjar og sker, sem er all nokkuð samanborið við 2.000 eyjar og sker á Breiðafirði, sem við Íslendingar virðumst halda að sé einhvers konar heimsmet, sem er auðvitað víðs fjarri.

Staddur í Turku fór ég á netið til að sjá hvað væri að gerast heima, og sá þá að Naantali er vinabær Vesturbyggðar í Finnlandi og að fulltrúar Vesturbyggðar eru á leið í vinabæjarheimsókn til Naantali í ágúst nk. Við fórum í kvöldverðarsiglingu frá Turku til Naantali þar sem sigld var hefðbundin siglingaleið frá höfninni í Turku, vestur með suðurströnd eyjunnar Ruissalo, sveigt norður fyrir vesturenda hennar og norður Naantali sund til Naantali. Siglingaleiðin er fádæma falleg; skógi vaxnar eyjar á bæði borð og víða með ströndinni eru bæði íbúðarhús og frístundahús innan um trén og gjarnan litlar bryggjur með aðstöðu fyrir báta íbúanna.

Við hjónin sátum til borðs með Finnum sem búsettir eru í Naantali og fræddu okkur um það sem fyrir augu bar. Eyjan Ruissalo er helsta útivistarparadís Turkubúa, þar eru ótal merktar göngu- og hjólaleiðir um fallega náttúru með upplýsingaskiltum um fjölbreytilega flóru og fánu eyjunnar, þar er einnig grasagarður, SPA-hótel, skemmtibátahöfn, golfvöllur, baðstrendur og bújarðir.

Við Naantali sund er ýmiss konar atvinnustarfsemi sem fellur einkar vel að landinu og athyglisvert hversu mikill trjágróður er á lóðum fyrirtækjanna og hve snyrtimennska til lands og sjávar er hvarvetna áberandi og eftirtektarverð. Þar er fyrst að telja skipasmíðastöð Aker Yards í Turku, sem hefur byggt nokkur stærstu skemmtiferðaskip heims s.s. Freedom of the Seas. Rétt innan bæjarmarka Naantali kom olíuhreinsistöð í ljós á sjávarbakkanum og umlukin trjágróðri. Þarna er um að ræða aðra tveggja olíuhreinsistöðva sem starfræktar eru í Finnlandi og eru báðar í eigu Neste Oil. Hin stöðin er austan við Helsinki í bænum Porvoo, sem er vinabær Dalvíkur.

Önnur áberandi fyrirtæki á hafnarsvæði Naantali eru kolaraforkuver Fortum, smurolíuverksmiðja Exxon Mobil, skipaviðgerðastöð Turku Repair Yard, Finn Link sem rekur vöru- og farþegaferjur, Finnfeeds Finland sem er hluti af alþjóðamatvælakeðju Danisco, Stevena sem rekur hafntengda vöruhúsastarfsemi og Suomen Viljava sem höndlar með kornvörur, fóðurblöndur o.fl.

Loks er sjálfur bærinn Naantali sem er fjórði elsti bær í Finnlandi, stofnaður 1443, nú með 14.000 íbúa og er mjög fjölsóttur ferðamannabær m.a vegna gamla bæjarhlutans og hinnar 565 ára gömlu stein-klausturkirkju sem þykir hafa einstakan hljómburð. Í ferðabæklingum kynna Finnar bæinn svona: "As a tourist town it has the best image in Finland." - það er ekkert minna en það, besta ímynd allra ferðamannabæja í Finnlandi, og þarna eru bæði olíuhreinsistöð, kolaraforkuver og skipasmíðastöð!!

Það sem er þó enn ónefnt og Finnum þykir mikið til koma er að í Naantali er
ævintýraeyjan Väski sem er heimkynni Moomin-álfanna, og það sem ekki er minna um vert er sumardvalarstaður forseta Finnlands handan Naantali sunds á eyjunni Luonnonmaa og heitir Kultaranta-kastali og var byggður 1916.

Það er fengur í því fyrir Vesturbyggð að eiga svona glæsilegan vinabæ, sem þar að auki er að fást við sömu viðfangsefnin - að byggja upp fjölskylduvænt samfélag í stórbrotnu landslagi þar sem tækifærin felast í siglingum, sögunni og nýtingu gæða lands og sjávar. Þarna ganga hönd í hönd íbúarnir, sveitarfélagið, ferðamannaiðnaður, olíuiðnaður, skipasmíðaiðnaður, flutningastarfsemi o.fl. sem hafa einsett sér að stuðla að og efla velferð íbúanna með uppbyggingu fjölbreytts atvinnulífs og um leið samfélagsins. Allir eru greinilega vel meðvitaðir um mikilvægi þess að gera ýtrustu kröfur til sjálfra sín í umgengni við náttúruna og í umhverfismálum yfirleitt.

Þarna er að finna góða fyrirmynd sem Vestfirðingar geta nýtt til eftirbreytni.

Þórólfur Halldórsson
Patreksfirði

tekið af fréttavefnum: patreksfjörður.is 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband